Þetta...

skodastolid...var í heildina séð frekar viðburðaríkur dagur. Þegar við vorum á leið útúr húsi í morgun með Dýrleifu Nönnu í 18 mánaða skoðun var bíllinn horfinn úr innkeyrslunni - og búið að opna alla hina bílana á hlaðinu. Maður var svona tiltölulega fljótur að leggja saman tvo og tvo og fá út að maður væri orðinn vitorðsmaður í fangaflótta.

Hringdi strax í lögguna og Ingvar sagði mér að bíllinn myndi örugglega finnast fljótlega þar sem þeir væru líklega að komast á sporið. Sú varð líka raunin og klukkan rúmlega 11 fundust bíllinn og þjófarnir í vesturbæ Reykjavíkur. Þá sagði ég Ingvari að myndavélin mín væri í bílnum en þrátt fyrir að hann ýtti við Reykjavíkurlöggunni þá höfðu þeir engan áhuga á því að hamra járnið á meðan það var heitt og finna vélina. Ég vissi það ekki fyrr en bíllinn var kominn á Selfoss klukkan sex að myndavélin væri horfin. Tilfinnanlegt tjón fyrir mig enda er þetta mín vinnuvél og ég geri ekkert án hennar. Vona bara að Reykjavíkurlöggan fari að vinna vinnuna sína eða þá að hægt verði að snúa upp á hendurnar á þjófunum.

Bíllinn er annars í góðu standi og óskemmdur. Drengirnir hafa meira að segja gengið tiltölulega snyrtilega um og ekki eyðilagt neitt nema geisladiskadæmið sem fest var við skyggnið. Þeir hafa hins vegar ekkert vit á myndavélum því að tvær linsur sem kosta einhvern pening voru óhreyfðar. Aftursætið var hins vegar fullt af fötum og einhverju drasli sem þeir hafa stolið í gærkvöldi. Frétti hjá löggunni að þeir hefðu skilið eftir skilaboð í vinnuskúr sem þeir fóru inní: "Takk fyrir okkur, strokufangarnir af Litla-Hrauni." Ég fékk engin svona skilaboð.

Fjölmiðlar landsins hringdu í mig í allan morgun en að sjálfsögðu skúbbar Sunnlenska fréttablaðið um stuldinn á ritstjóravagninum. Dramatískasta samtalið kom frá fréttakonu fréttablaðsins sem ég hafði lítinn tíma til að tala við og bað um að hringja í mig eftir hádegi. Líklega hefur hún misst áhugann því hún hringdi ekkert aftur...

Hér má lesa um bíl dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Þetta eykur sölugildi kaggans  til muna..  Verst þykir mér þó að heyra um vélina þína.. Skil þig vel að vera leiður yfir því.. 

Stefán Þór Steindórsson, 4.10.2007 kl. 00:30

2 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Gott að þetta fór vel en helv.... lögguletingjarnir fyrir sunnan, þetta er nú svolítið verðmeira dót sem þú ert búinn að glata, heldur en ef til dæmis mínum bíl væri stolið (hjólinu) Skil þig svo mikið vel að vera svekktan, það var einmitt Ingvar sem fann hjólið mitt þegar því var stolið að mér forspurðum. Þetta er tilfinnanleg fötlun reyndar er smá stigsmunur. Ha ha

Eiríkur Harðarson, 4.10.2007 kl. 02:38

3 identicon

Mikið er nú gott að bíllinn er fundinn en leiðinlegt er að heyra með myndavélina... vonandi kemst hún í leitirnar...

Ninna (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 13:26

4 Smámynd: Guðmundur Marteinn Hannesson

já þetta er hið leiðinlegasta mál...

fyndið samt að þeir skyldu finnast í vesturbænum í rvk, því ég sagði við nokkra sem eru með mér í verkfræðinni að hafa augun opin ef þeir sæju dökkgráan skóda með bílnúmerið zx 224. Þá sögðu flestir við mig, afhverju ættu þeir að fara í rvk, hvað þá að leggja leið sína í vesturbæinn (háskólinn er alveg við vesturbæinn fyrir þá sem ekki vita.)

Guðmundur Marteinn Hannesson, 4.10.2007 kl. 22:41

5 Smámynd: GK

SÞS: Já, nú er Skódinn orðinn algjör gullmoli. Getaway car. Jamm... ég er þokkalega svekktur yfir vélinni...

EH: Hahaha... ég er nú hálf fatlaður svona myndavélarlaus... ;)

ÁNK: Jamm. Takk.

GMH: Jamm... þetta var svo víst ekkert í vesturbænum. Þeir voru í einhverju bæli á Grettisgötunni...

GK, 4.10.2007 kl. 23:51

6 Smámynd: Ólafur fannberg

sögufrægur kaggi

Ólafur fannberg, 5.10.2007 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband