18.8.2006 | 20:39
Eldgos...
...er ekki eitthvað sem maður vill fá í andlitið þegar maður er að keyra í nágrenni Heklu. Nema auðvitað að maður sé í það góðri fjarlægð að maður geti tekið myndir af því. Ég, Vladimir og Dimma héldum í mikla ævintýraferð í morgun. Ég hef tekið myndir af rallýbílum frá því ég var ca. sex ára gamall og elti þetta út um allar trissur. Nú er alþjóðarallið í gangi og þá eru jólin. Mig hefur alltaf langað til að fara upp á Dómadal og þar í nágrenni til þess að smella af en hef aldrei átt bíl sem ég hef treyst til þess, fyrr en nú að Vladimir er kominn til sögunnar. Reyndar er Dómadalurinn sæmilega fólksbílafær en það er annað mál.

Dimma og Vladimir ræða málin
Við ókum af stað kl. 8:40 í morgun í rólegheitunum, stútfull af bensíni, hangikjötssamloku og harðfiski. Það var rennifæri upp á Dómadalsleið og ég tók fínar myndir á jumpi nálægt Valahnúkum. Ég hafði parkerað Vladimir vel úti í kanti en þegar ég ætlaði að fara aftur af stað var hann steindauður. Alternatorinn er líklega ónýtur og nú voru góð ráð dýr fjarri mannabyggðum. Ég þurfti þó ekki lengi að hafa áhyggjur því björgunarsveitin á Akranesi var í hlutverki eftirfara í rallinu og þeir tosuðu mig í gang.
Þá ókum við sem leið liggur upp í Skjólkvíahraun í norðurhlíðum Heklu og þar uppá Rauðkembinga og inn á Hekluleið. Einhverntíman ætla ég að gefa mér tíma til að hossast þetta á almennilegum bíl (fyrirgefðu Vladi) í góðu veðri því að útsýnið þarna uppi er frábært og landslagið í Hekluhrauninu stórfenglegt. En nóg um það. Á síðustu kílómetrum Hekluleiðarinnar springur á Vladimir, farþegamegin að framan. Þá er ég að tala um að dekkið rifni. Ég ók áfram á næstu tímavarðstöð og hitti þar hóp af æðislega hressum jeppaköllum sem höfðu sko ekkert betra að gera heldur en að hjálpa mér og buðust meira að segja til að gera við dekkið... sem ég afþakkaði pent, og setti frekar undir orginal nagladekk sem Vladimir hefur átt síðan 1991. Vladi var að sjálfsögðu aftur rafmagnslaus þegar ég ætlaði af stað en jeppakallarnir bæði ýttu og drógu þangað til sá rauði hrökk í gang.
Á nýja nagladekkinu skröltum við niður Skógshraunið og höfðum Vladimir í gangi á meðan ég tók myndir á síðustu sérleiðinni. Síðan var "brunað" á Selfoss og allir voru sáttir við að vera komnir heim. Ég bjóst reyndar við því að Vladimir myndi falla saman "A la Blues Brothers" þegar ég parkeraði honum í hlaðinu en það gerðist ekki...
Snilldarferð og þakkir til jeppakallanna og björgunarsveitarinnar á Akranesi ef þeir eru að lesa
![]() |
Daníel og Ásta með örugga forystu í Rally Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flott mynd af Dimmu. Ég held að Vladimir sé bara svona heimakær...fer bara í baklás þegar hann er kominn x langt frá heimili sínu.
Josiha, 18.8.2006 kl. 22:03
Gæti verið...
GK, 18.8.2006 kl. 23:02
"Greyið" Vladi,hann hefur sem sagt ekki fengið harðfisk?
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 18.8.2006 kl. 23:33
Hann fékk 95 oktana...
GK, 19.8.2006 kl. 01:01
vladimir... klikkar ekki! (bara stundum)
Guðmundur Marteinn Hannesson, 19.8.2006 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.